Sagan

Fjármál heimilanna

Það var einn góðan veðurdag, vorið 2000, að konan mín tók mig tali og sagðist vera búin að fá nóg af stöðugum peningaáhyggjum. Tekjur okkar voru að vísu þokkalegar, við áttum hús og tvo bíla og börnin uppkomin, en þrátt fyrir þessa góðu stöðu náðu endar varla saman. Þetta var næstum sama baslið og við upphaf búskaparins. VISA kom okkur alltaf jafn mikið á óvart um hver mánaðarmót, skuldirnar virtust ekkert minnka, bankinn átti húsið þegar að var gáð og bíllinn var ekki beysinn. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Það var þá sem við ákváðum að skoða fjármálin frá upphafi til enda og hlífa okkur hvergi. Okkur til mikillar undrunar sáum við að vaxandi skuldir voru samfara auknum tekjum. Þetta gat ekki staðist, eitthvað var að. Við notuðum næstu tvö árin til að greina stöðuna og læra af reynslunni, nýta menntun okkar og fræðast af öðrum og þróa með okkur nýja hegðun í fjármálum.

Vinir og vinnufélagar fóru að taka eftir breytingum hjá okkur, minni peningaáhyggjum og auknum fjárráðum. Við fórum að segja öðrum frá því sem við vorum að gera og konan mín var beðin um að halda fyrirlestra í saumaklúbbum. Í byrjun desember 2002 héldum við fyrsta námskeiðið um fjármál heimilisins fyrir almenning, það bar heitið “Úr mínus í plús”.

Fjögur námskeið voru haldin fram í mars 2003, sem tæplega 100 manns sóttu. Við fengum mikilvæga reynslu og verðmæta þekkingu frá þeim sem sóttu námskeiðin. Fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög leituðu til okkar með fyrirspurnir og óskir um námskeið og nokkrir fjölmiðlar veittu námskeiðunum athygli og sögðu frá þeim.

Það kom þægilega á óvart að sjá alla aldurshópa og fólk hvaðanæva úr þjóðfélaginu sækja námskeiðin. Þetta staðfesti að það eru ekki tekjurnar sem skipta máli um afkomuna heldur hvernig útgjöldunum er stýrt. Ungt fólk, allt niður í 16 ára, sótti námskeiðin og sumir komu með foreldrum sínum. Skólarnir virðast því miður senda nemendur sína út í lífið án nokkurrar þekkingar á meðferð peninga eða rekstri heimilis. Þrír grunnskólakennarar sátu þó eitt námskeiðið með það að markmiði að vinna kennsluefni fyrir skólann sinn.Það sem í upphafi var viðsnúningur í eigin fjármálum var orðið að áhugaverðu efni fyrir fjölda fólks. Við ákváðum því að fylgja þessu eftir og settum saman námskeið sem höfðar til mismunandi aldurshópa og fullnægir þörfum einstaklinga jafnt sem fyrirtækja og stofnana. Þetta er í stuttu máli sagan á bakvið Fjármál heimilanna ehf.

Spara.is

Fjármál heimilanna urðu brátt vel þekkt fyrir námskeiðin “Úr mínus í plús”, veltukerfið og einstaklingsráðgjöfina. En þá kom babb í bátinn; sumir rugluðu saman Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, sem er opinber stofnun en styrkt af bönkum og fjármálastofnunum og Fjármálum heimilanna sem er óháð opinberum aðilum og öllum fjármálastofnunum. Nú urðu góð ráð dýr því að við vildum fyrir alla muni undirstrika sjálfstæðið og aðgreina okkur frá Ráðgjafarstofunni en ekki gefa frá okkur nafnið. Ekki gátum við farið fram á að Ráðgjafarstofan skipti um nafn og því varð niðurstaðan sú að við héldum nafni fyrirtækisins, Fjármál heimilanna ehf, en breyttum heitinu á vefsíðunni í www.spara.is. Sennilega er starfsemi okkar betur þekkt í dag sem spara.is en Fjármál heimilanna og erum við mjög sátt við það því að það vísar ágætlega til þess sem við erum að gera – að kenna sparnað og uppbyggingu eigna.

Epli & appelsínur

Fjárhagskerfi heimilisins er forritið sem allir nota sem vilja ná árangri í fjármálum sínum. Þegar kom að því að uppfæra kerfið veltum við því fyrir okkur hvort ekki væri til annað og betra nafn á hugbúnaðinn en “Fjárhagskerfi” sem er voðalega hátíðlegt og þunglamalegt. Okkur datt því það snjallræði í hug að skýra forritið “Epli og appelsínur”. En hversvegna það heiti en ekki “Björt framtíð” eða “Auðugt líf” sem eru einnig lýsandi fyrir tilgang kerfisins? Það er örlítil saga á bak við það.

Fjármál hafa lengst af verið viðfangsefni hagfræðinnar, þó að fjármál heimilanna hafi ekki fengið mikið vægi í fræðunum. Það má líkja helstu kenningum hagfræðinnar við stærðfræðijöfnu þar sem dæmið verður að ganga upp, annars er það rangt. Þess vegna ítreka hagfræðingar gjarnan í allri umræðu að ekki megi bera saman epli og appelsínur sem er tvennt ólíkt, eins og flestir vita. Þetta er auðvitað rétt, svo langt sem það nær. Líf okkar er hins vegar engin jafna því að það gengur sjaldnast upp og að lokum deyjum við, sem er í raun fatalt. Við hjá spara.is vitum að lífið er ekki reglustika og það tekur oft óvænta stefnu og við bregðumst ekki alltaf rökrétt við, og kannski allra síst í fjármálum. Þess vegna skiljum við svo vel það óvænta og ruglingslega og leggjum áherslu á fjölbreytnina og möguleikana til þess að láta draumana rætast. Við vitum að það er hægt að losna hratt við skuldir á sama tíma og byggður er upp sparnaður og eignir. Við vitum líka hvernig á að stýra og nota peninga til þess að hafa ánægju af þeim í stað þess að þeir taki völdin og geri okkur að þrælum sínum. Þess vegna segjum við: veldu bæði eplið og appelsínuna, það er hægt og við kennum þér það. 


Ingólfur H. Ingólfsson 

 


 
Ingólfur H. Ingólfsson
stofnandi og stjórnarformaður Bärbel Schmid
stofnandi og meðstjórnandi 

Fjármál heimilanna kt: 600603 - 2210     |    Fellsmúla 15    |    108 Reykjavík    |    sími: 587 2580    |    fax: 578 2580    |    spara@spara.is