Fréttir

25.11.2011

Sparifélagið hf. leitar fjárfesta fyrir Sparibankann

Sparibankinn gæti orðið fjórði stærsti viðskiptabankinn á fyrsta starfsári sínu, samkvæmt könnun Miðlunar frá því í desember 2010. Hvorki fleiri né færri en 16% aðspurðra ætluðu að flytja bankaviðskipti sín yfir í Sparibankann og rúm 29% voru á báðum áttum. Það er því engin vafi á að fólkið í landinu bíður eftir að Sparibankinn hefji starfsemi sína.

Sparifélagið hf. hefur unnið að leyfisumsókn fyrir viðskiptabanka og útboðslýsingu fyrir almennt hlutafjárútboð í hartnær tvö ár og er núna á lokasprettinum, en það vantar fjármagn til þess að klára verkið. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Sparifélaginu ekki tekist að fá stóra fjárfesta að verkefninu. Hvers vegna, er erfitt að segja til um. En við virðumst ekki vera ein í þessari stöðu því ef marka má fréttir þá hefur Bjarkarsjóðnum hjá Auði Capital Fjárfestingarbanka ekki heldur tekist að fjármagna sig á síðustu þremur árum, þó státar hann hvorki meira né minna en af sjálfri stórstjörnunni Björk Guðmundsdóttur.

Það hefur alla tíð verið ljóst að styrkur Sparibankans liggur í stuðningi almennings og því gerðu áætlanir ráð fyrir að fara í almennt hlutfjárútboð í nóvember á þessu ári til þess að fjármagna stofnun bankans og tryggja honum dreifða eignaraðild. En það gæti orðið nokkur bið þar á, því miður. Sparifélaginu hf. vantar fjármagn til þess að komast í hlutafjárútboðið. Við lítum svo á að það séu þrír kostir í stöðunni. Í fyrsta lagi að fá fleiri einstaklinga eða félög til þess að fjárfesta í verkefninu. Í öðru lagi að selja Sparifélagið hf. og sjálfa hugmyndina að Sparibankanum og í þriðja lagi að draga saman seglin og bíða þar til að fjárfestingar fara aftur af stað í landinu. Við erum að vinna á öllum þessum vígstöðum og verðum meðal annars að skila af okkur húsnæðinu í Lækjargötu 2a til þess að draga úr öllum skuldbindingum félagsins á meðan óvissan varir.

Það er von okkar og trú að úr fjármögnun félagsins rætist innan tíðar og þó að verkefnið dragist um einhverjar vikur eða mánuði muni Sparibankinn opna á árinu 2012.

Ingólfur H. Ingólfsson
16.09.2011
 

Sparibankinn gæti orðið fjórði stærsti bankinn á fyrsta starfsári!

Vinna við stofnun Sparibankans er á lokastigi en nú stendur yfir vinna við fjármögnun hans. Það eru gömul sannindi og ný að síðustu metrarnir í langhlaupi reynast oftast erfiðastir og fyrir því finnum við.

Við hjá Sparifélaginu hf. (spara.is) fáum margar fyrirspurnir á dag um hvort nýi bankinn sé ekki að koma. Erum við öllum þeim sem hafa haft samband afar þakklát. Við gerðum okkur ekki fyllilega grein fyrir því hvaða væntingar markaðurinn gerði til nýja bankans fyrr en niðurstöður úr viðhorfskönnun Miðlunar ehf, sem gerð var fyrir bankana í desember í fyrra, lágu fyrir. Án þess að við hjá Sparifélaginu vissum, þá var eftirfarandi spurning á spurningalistanum: „Stefnt er að því að nýr íslenskur banki, Sparibankinn, taki til starfa hér á landi eftir ár. Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að þú myndir flytja viðskipti þín til nýja bankans?“ Svörin komu okkur verulega á óvart en voru þó í takti við það sem við skynjuðum í samfélaginu. Hvorki meira né minna en 16% svöruðu öruggt, mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir myndu flytja viðskipti sín í Sparibankann (fyrstu þrjár súlurnar) og rúm 29% voru óákveðin (fjórða súlan). Kæru lesendur, ef til vill áttið þið ykkur ekki á því að þótt þessi niðurstaða gengi ekki eftir nema að hluta til, yrði Sparibankinn fjórði stærsti viðskiptabanki landsins strax á fyrsta starfsári sínu! Þessar niðurstöður fara langt fram úr okkar björtustu vonum og viðskiptaáætlun okkar gerir ekki ráð fyrir nema brotabroti af þessum fjölda viðskiptavina á fyrsta starfsári.

Hinn dæmigerði viðskiptavinur Sparibankans

En hver skyldi hinn dæmigerði viðskiptavinur Sparibankans vera? Úr könnun Miðlunar ehf má lesa að hann er karlmaður, 35 – 49 ára, með 800 – 999 þúsund krónur í mánaðarlegar fjölskyldutekjur, búandi á höfuðborgarsvæðinu með verklega framhaldsmenntun. Þessi lýsing passar afskaplega vel við þær fjölskyldur sem koma í einkaráðagjöf til okkar hjá spara.is – fólk með góða menntun og tekjur yfir meðallagi sem vill ná fjárhagslegri velgegni og láta drauminn um hamingjusamt líf með fjölskyldunni rætast.
08.08.2011
Úr fréttabréfi spara.is
Unnið er látlaust að stofnun nýja bankans, Sparibankans. Húsnæði við lækjargötu 2a hefur verið tekið á leigu frá og með 1. september og ráðgert er að almennt hlutafjárútboð verði í október/nóvember og gefst þá öllum tækifæri til þess að kaupa hlutabréf og vera með í stofnun bankans. Bréfin verða skráð í Kauphöllinni svo það á að vera auðvelt að eiga viðskipti með þau. Og hvenær opnar svo bankinn? Það er enn of snemmt að nefna dagsetningu en á vefsíðu www.spara.is hefur verið komið fyrir flipa undir heitinu "Sparibankinn" og þar er að finna allar upplýsingar um Sparifélagið og fréttir af gangi mála.
Mynd: Lækjargata 2a - götumyndFjármál heimilanna kt: 600603 - 2210     |    Fellsmúla 15    |    108 Reykjavík    |    sími: 587 2580    |    fax: 578 2580    |    spara@spara.is